Thursday, May 25, 2006

Tvö efnahagskerfi í heimsókn

Um daginn kom kona í heimsókn sem heitir Tozie. Hún er Xhosa eins og bæði Miriam Makeba og Nelson Mandela.
Þetta var þó ekki kurteisisheimsókn því Tozie tók fljótt til við að skúra og skrúbba. Þremur tímum seinna drukkum við te og spjölluðum um menn og málefni (að því leyti sem menningarlegur munur leyfði) í skínandi hreinni íbúðinni. Hún skrifaði niður nokkur Xhosa söngkonu nöfn fyrir mig og líka símanúmerið sitt ef við vildum að hún kæmi aftur. Kvaddi síðan með 70 rönd (ca 700 ÍSKR) í buddunni, ávexti í poka og bros á vör. Tveggja tíma ferðalag í litlum leigubíla-strætóum fyrir höndum til að komast heim til sín til Guguletu (township).

Fyrir utan að sleppa við að þrífa sjálfur er þetta ein leið til að kynnast fólki úr öðrum þjófélagshópum. Og líka vinnuskapandi fyrir Tozie sem því miður hefur ekki um margt að velja.

Tozie tilheyrir öðru efnahagskerfi en ég. Hún tekur 50 rönd fyrir morgunstund og 100 rönd fyrir heilan dag, ef vel gengur hefur hún nóg á milli handanna fyrir mat, klæðnaði og húsaleigu í Guguletu, sem og ferðakostnaði inní ríkari hverfi borgarinnar þar sem hún sækir vinnu. Já hún er meira að segja með gemsa. En þá er það er það líklega komið. Tozie hefur aldrei ferðast, hvorki innanlands né utan, hún hefur ekki einu sinni komið til Stellenbosh sem er fallegur bær hér rétt fyrir utan Cape Town.

Næsta dag fengum við aðra heimsókn, lögfræðimenntuð vinkona sem útskýrði fyrir mér hin ólíku efnahagskerfi landsins. Hún sagði að hér væri líka margt ungt fólk sem hefði lítið á milli handanna, gengi illa að fá vinnu eða ynni láglaunastörf á Vestrænan mælikvarða, nær ekki endum saman um mánaðarmót, safnar skuldum og lifir naumt. Þetta fólk hefur líklega miklu meira á milli handanna en Tozie, en það getur samt ekki bara hoppað niður í næsta efnahagskerfi og verið efnað þar.

Í hinni nýju Suður-Afríku þar sem fleiri og fleiri svartir tilheyra efri stéttum samfélagsins eru því ennþá tvö efnahagskerfi í gangi. Kannski má segja að fátæktin sé afstæð. Munurinn á möguleikum mínum og möguleikum Tozie er þó ekkert afstæður, heldur bara all verulegur.
Já það er er eitthvað bogið við þennan heim og ég segi bara eins og amma Olga; "Ef ég væri ung núna, þá mundi ég lesa hagfræði", en verð svo kannski að bæta við "ég hef bara ekki tíma í dag".

Wednesday, May 17, 2006

Bíóveruleiki






Við erum nú búin að klöngrast upp og niður kletta og brekkur ýmist í gönguskóm eða klifurtúttum, sannfærast um að tröll eru líka til sunnan miðbaugs og komast í návígi við Bushman magí.

Cederberg þjóðgarðurinn um 200 km norður af Höfðaborg samanstendur af fjöllum og ævintýralegum klettum sem minna helst á Villta Vestrið. Mann undrar ekki að Bushmenn völdu sér þarna staði fyrir trúarlegar athafnir, en klettamyndir sem þeir máluðu í trans-serímoníum fyrir 5000 árum bera þess vitni. Fyrir um 300 árum fóru fyrstu Evrópumennirnir að koma sér fyrir á svæðinu og mikil ósætti komu upp á milli þeirra og innfæddra meðal annars út af því að þeir síðarnefndu voru víst svo "þjófóttir". Raunin var víst að Bushmenn voru vanir því að deila öllu, eignaréttur var kannski ekki til í þeirra samfélagi.

Þessa dagana er friðsamlegt í Cederberg og það var því fyrst þegar við keyrðum í gegnum miðborg Höfðaborgar daginn eftir, að action senan átti sér stað. Ég er að akkurat að segja Dries frá því að því að Tom Waits muni leika í næstu mynd Dags Kára þegar við sjáum fyrstu glerbrotin á götunni. Við keyrum hægt áfram og sjáum mannmergð, ljósmyndara, lögregluþjóna og heyrum í þyrlu fyrir ofan okkur. Það er eins og augnablikið hafi verið fryst og lífið standi í stað allt í kring. Glerbrot út um allt sem við keyrum áfram, fleira fólk, allt svo hljótt fyrir utan þyrluna. Inní bílnum hjá okkur frýs tíminn líka og við horfum bæði beint í gegnum framrúðuna og einbeitum okkur að því að komast útúr ástandinu sem við vissum þó lítið sem ekkert um hvað snérist.
Eftir nokkrar beygjur frá miðbænum var borgin eins og ekkert hefði í skorist. Við fengum málið aftur og tókum upp þráðinn um kvikmyndaleikstjórann heima og Tom Waits og hve magnað það nú væri og rifjuðum upp Down by Law sem við horfðum á fyrir stuttu (ekki hægt að sjá hana of oft). Spurningin um hvað hafði verið í gangi í miðbæ Höfðaborgar vofði yfir en varð ekki svarað fyrr en við komumst heim á fréttasíður internetsins.

Við höfðum keyrt inní eftirmála hasarsenu sama morguns, öryggisverðir sem eru búnir að vera í verkfalli í mánuð voru með mótmæli og allt fór úr böndunum. Þeir brutu og brömluðu búðaglugga og bílrúður, hnupluðu frá gangandi vegfarendum og hrintu sölubásum markaðsfólks. Túristi frá Fillipseyjum kastaðist í gegnum einn búðagluggann en komst ómeiddur í flug heim í dag. Haft var eftir honum að hann hefði að minnsta kosti góða sögu með sér heim.
Fyrir flesta sem voru í miðbænum þennan morgun var þetta þó hvorki góð saga né semi-spennandi blogg, heldur flókinn og harður raunveruleikinn. Svangir menn í verkfalli, fangaklefar, réttarhöld, spítalarúm og skemmdarverk.
Vandalismi sem þessi á ekki heima í Suður Afríku nútímans, en það er samt ekki hægt að horfa framhjá hatri sem stafar af misrétti á tímum aðskilnaðarstefnunnar og fátækt sem meiri hluti þjóðarinnar býr ennþá við.




Af fréttasíðu News24:



Cederberg þjóðgarðurinn
Bushmen
Verkfall öryggisvarða

Monday, May 08, 2006

Kúltúr í Cape Town
Mozart, Picasso og Carmen í Afríku



Menningarlífið í Cape Town er í miklum blóma og mikilvægur þáttur í samfélagslegri uppbyggingu. Stundum er sú leið farin að blanda saman menningu infæddra og vestrænni "hámenningu", kannski til að benda á hið sammannlega og hvað hinir ólíku menningarheimar eiga sameiginlegt þrátt fyrir allt.
Þetta tekst auðvitað misvel. Carmen í Khayelitsha er kvikmynd, þar sem ópera Bizets er sungin á Xhosa tungumálinu og staðsett í fátækrahverfinu Khayelitsha. Dálítið eins og að horfa á heimildamynd um Khayelitsha hverfið með röngu hljóðspori. Útkoman er því bara skemmtilega fáránleg.
Betur tekst til á sýningunni Picasso og Afríka á listasafni Höfðaborgar, en þar er heillandi afrískum grímum eftir ýmsa ónefnda stillt upp með verkum meistarans. Virkilega flott samspil og greinilegt að Picasso hafði inspirerast af ónefndum.
Hápunkturinn hingað til af svona menningarblöndu var samt á afmælistónleikum Mozarts í síðustu viku. Tónleikarnir voru haldnir í ráðhúsi Höfðaborgar, íburðarmikilli 19. aldar byggingu. Boðskapurinn: tónlist sem tákn hins algilda sameiningartungumáls okkar allra.
Eftir að sungnar höfðu verið nokkrar aríur úr Töfraflautunni af infæddum kór og framúrskarandi óperusöngvurum (einum með rastafléttur) steig á svið tyrkneski píanóleikarinn Fazil Say með píanókonsert í C dúr. Frjálsleg spilamennska hans dróg salinn uppá alveg nýtt Mozart-léttleika plan með impróviseruðum cadenzum, leikrænni tjáningu og samspili við hljómsveitina. Eiginlega eins og að vera kominn útí frumskóg, hljómsveitin stóð fyrir fugla og antilópur, píanóleikarinn bavíana apa í miklu stuði, og við áhorfendur kjarrið og tréin í kring.
Fazil Say var auðvitað klappaður upp og tók tvö aukalög, í hinu fyrra skapaði hann tyrkneska stemmningu með flýglinum, hann lagði aðra höndina á strengi flýgilsins og dempaði sumar nóturnar. Þannig var hann alltí einu kominn í töfrandi díalóg við sjálfan sig og heimalandið.
Seinna aukalagið var síðan hrífandi á allt annan hátt. Fazil byrjaði að spila stef úr Eine Kleine Nacht músikk sem þróaðist síðan í að vera Cape Town jazz, síðan lék hann sér að því að skipta úr klassískum rytma yfir í jazzaðan rytma og gerði áheyrendur alveg ringlaða.
Og þá var vel viðeigandi að bjóða velkomna á svið Túskildingsflautu-tríóið Kwela Tebza með jazz fimmta áratugarins Suður Afríku. Jazzinn sem var bældur niður í mörg ár en ný kynslóð ætlar að halda áfram með. Eins og þeir sögðu sjálfir "we are not gonna stop now". Kwela bræðurnir tóku sig vel út næsta klukkutímann, ungir sjarmörar í teinóttum jakkafötum með flotta kórígrafíu og lipra fingur á túskildingsflautunum.
Very cool. En á köflum pínulítið þreytandi fyrir eyra sem er vant blokkflautum og þverflautum.
Boðskapurinn komst vel til skila. Aðstandendur tónleikanna trúa því að tónlistamenntun í fátækrahverfum getið virkað örvandi og aukið á sjálfsvirðingu og stolti hjá krökkum. Það sem mér var efst í huga eftir tónleikana var að sá sem hefur tónlist í sér og í lífi sínu er ríkur. Já kannski ríkari en sá sem býr í húsi þar sem eina hljóðfærið er þjófavarnabjallan og múrinn í kring kann bara að segja 'armed response'.


Carmen í Khayelitsha
Picasso og Afríka
Túskildingsflauta