Thursday, May 25, 2006

Tvö efnahagskerfi í heimsókn

Um daginn kom kona í heimsókn sem heitir Tozie. Hún er Xhosa eins og bæði Miriam Makeba og Nelson Mandela.
Þetta var þó ekki kurteisisheimsókn því Tozie tók fljótt til við að skúra og skrúbba. Þremur tímum seinna drukkum við te og spjölluðum um menn og málefni (að því leyti sem menningarlegur munur leyfði) í skínandi hreinni íbúðinni. Hún skrifaði niður nokkur Xhosa söngkonu nöfn fyrir mig og líka símanúmerið sitt ef við vildum að hún kæmi aftur. Kvaddi síðan með 70 rönd (ca 700 ÍSKR) í buddunni, ávexti í poka og bros á vör. Tveggja tíma ferðalag í litlum leigubíla-strætóum fyrir höndum til að komast heim til sín til Guguletu (township).

Fyrir utan að sleppa við að þrífa sjálfur er þetta ein leið til að kynnast fólki úr öðrum þjófélagshópum. Og líka vinnuskapandi fyrir Tozie sem því miður hefur ekki um margt að velja.

Tozie tilheyrir öðru efnahagskerfi en ég. Hún tekur 50 rönd fyrir morgunstund og 100 rönd fyrir heilan dag, ef vel gengur hefur hún nóg á milli handanna fyrir mat, klæðnaði og húsaleigu í Guguletu, sem og ferðakostnaði inní ríkari hverfi borgarinnar þar sem hún sækir vinnu. Já hún er meira að segja með gemsa. En þá er það er það líklega komið. Tozie hefur aldrei ferðast, hvorki innanlands né utan, hún hefur ekki einu sinni komið til Stellenbosh sem er fallegur bær hér rétt fyrir utan Cape Town.

Næsta dag fengum við aðra heimsókn, lögfræðimenntuð vinkona sem útskýrði fyrir mér hin ólíku efnahagskerfi landsins. Hún sagði að hér væri líka margt ungt fólk sem hefði lítið á milli handanna, gengi illa að fá vinnu eða ynni láglaunastörf á Vestrænan mælikvarða, nær ekki endum saman um mánaðarmót, safnar skuldum og lifir naumt. Þetta fólk hefur líklega miklu meira á milli handanna en Tozie, en það getur samt ekki bara hoppað niður í næsta efnahagskerfi og verið efnað þar.

Í hinni nýju Suður-Afríku þar sem fleiri og fleiri svartir tilheyra efri stéttum samfélagsins eru því ennþá tvö efnahagskerfi í gangi. Kannski má segja að fátæktin sé afstæð. Munurinn á möguleikum mínum og möguleikum Tozie er þó ekkert afstæður, heldur bara all verulegur.
Já það er er eitthvað bogið við þennan heim og ég segi bara eins og amma Olga; "Ef ég væri ung núna, þá mundi ég lesa hagfræði", en verð svo kannski að bæta við "ég hef bara ekki tíma í dag".