Wednesday, May 17, 2006

Bíóveruleiki






Við erum nú búin að klöngrast upp og niður kletta og brekkur ýmist í gönguskóm eða klifurtúttum, sannfærast um að tröll eru líka til sunnan miðbaugs og komast í návígi við Bushman magí.

Cederberg þjóðgarðurinn um 200 km norður af Höfðaborg samanstendur af fjöllum og ævintýralegum klettum sem minna helst á Villta Vestrið. Mann undrar ekki að Bushmenn völdu sér þarna staði fyrir trúarlegar athafnir, en klettamyndir sem þeir máluðu í trans-serímoníum fyrir 5000 árum bera þess vitni. Fyrir um 300 árum fóru fyrstu Evrópumennirnir að koma sér fyrir á svæðinu og mikil ósætti komu upp á milli þeirra og innfæddra meðal annars út af því að þeir síðarnefndu voru víst svo "þjófóttir". Raunin var víst að Bushmenn voru vanir því að deila öllu, eignaréttur var kannski ekki til í þeirra samfélagi.

Þessa dagana er friðsamlegt í Cederberg og það var því fyrst þegar við keyrðum í gegnum miðborg Höfðaborgar daginn eftir, að action senan átti sér stað. Ég er að akkurat að segja Dries frá því að því að Tom Waits muni leika í næstu mynd Dags Kára þegar við sjáum fyrstu glerbrotin á götunni. Við keyrum hægt áfram og sjáum mannmergð, ljósmyndara, lögregluþjóna og heyrum í þyrlu fyrir ofan okkur. Það er eins og augnablikið hafi verið fryst og lífið standi í stað allt í kring. Glerbrot út um allt sem við keyrum áfram, fleira fólk, allt svo hljótt fyrir utan þyrluna. Inní bílnum hjá okkur frýs tíminn líka og við horfum bæði beint í gegnum framrúðuna og einbeitum okkur að því að komast útúr ástandinu sem við vissum þó lítið sem ekkert um hvað snérist.
Eftir nokkrar beygjur frá miðbænum var borgin eins og ekkert hefði í skorist. Við fengum málið aftur og tókum upp þráðinn um kvikmyndaleikstjórann heima og Tom Waits og hve magnað það nú væri og rifjuðum upp Down by Law sem við horfðum á fyrir stuttu (ekki hægt að sjá hana of oft). Spurningin um hvað hafði verið í gangi í miðbæ Höfðaborgar vofði yfir en varð ekki svarað fyrr en við komumst heim á fréttasíður internetsins.

Við höfðum keyrt inní eftirmála hasarsenu sama morguns, öryggisverðir sem eru búnir að vera í verkfalli í mánuð voru með mótmæli og allt fór úr böndunum. Þeir brutu og brömluðu búðaglugga og bílrúður, hnupluðu frá gangandi vegfarendum og hrintu sölubásum markaðsfólks. Túristi frá Fillipseyjum kastaðist í gegnum einn búðagluggann en komst ómeiddur í flug heim í dag. Haft var eftir honum að hann hefði að minnsta kosti góða sögu með sér heim.
Fyrir flesta sem voru í miðbænum þennan morgun var þetta þó hvorki góð saga né semi-spennandi blogg, heldur flókinn og harður raunveruleikinn. Svangir menn í verkfalli, fangaklefar, réttarhöld, spítalarúm og skemmdarverk.
Vandalismi sem þessi á ekki heima í Suður Afríku nútímans, en það er samt ekki hægt að horfa framhjá hatri sem stafar af misrétti á tímum aðskilnaðarstefnunnar og fátækt sem meiri hluti þjóðarinnar býr ennþá við.




Af fréttasíðu News24:



Cederberg þjóðgarðurinn
Bushmen
Verkfall öryggisvarða