Monday, May 08, 2006

Kúltúr í Cape Town
Mozart, Picasso og Carmen í Afríku



Menningarlífið í Cape Town er í miklum blóma og mikilvægur þáttur í samfélagslegri uppbyggingu. Stundum er sú leið farin að blanda saman menningu infæddra og vestrænni "hámenningu", kannski til að benda á hið sammannlega og hvað hinir ólíku menningarheimar eiga sameiginlegt þrátt fyrir allt.
Þetta tekst auðvitað misvel. Carmen í Khayelitsha er kvikmynd, þar sem ópera Bizets er sungin á Xhosa tungumálinu og staðsett í fátækrahverfinu Khayelitsha. Dálítið eins og að horfa á heimildamynd um Khayelitsha hverfið með röngu hljóðspori. Útkoman er því bara skemmtilega fáránleg.
Betur tekst til á sýningunni Picasso og Afríka á listasafni Höfðaborgar, en þar er heillandi afrískum grímum eftir ýmsa ónefnda stillt upp með verkum meistarans. Virkilega flott samspil og greinilegt að Picasso hafði inspirerast af ónefndum.
Hápunkturinn hingað til af svona menningarblöndu var samt á afmælistónleikum Mozarts í síðustu viku. Tónleikarnir voru haldnir í ráðhúsi Höfðaborgar, íburðarmikilli 19. aldar byggingu. Boðskapurinn: tónlist sem tákn hins algilda sameiningartungumáls okkar allra.
Eftir að sungnar höfðu verið nokkrar aríur úr Töfraflautunni af infæddum kór og framúrskarandi óperusöngvurum (einum með rastafléttur) steig á svið tyrkneski píanóleikarinn Fazil Say með píanókonsert í C dúr. Frjálsleg spilamennska hans dróg salinn uppá alveg nýtt Mozart-léttleika plan með impróviseruðum cadenzum, leikrænni tjáningu og samspili við hljómsveitina. Eiginlega eins og að vera kominn útí frumskóg, hljómsveitin stóð fyrir fugla og antilópur, píanóleikarinn bavíana apa í miklu stuði, og við áhorfendur kjarrið og tréin í kring.
Fazil Say var auðvitað klappaður upp og tók tvö aukalög, í hinu fyrra skapaði hann tyrkneska stemmningu með flýglinum, hann lagði aðra höndina á strengi flýgilsins og dempaði sumar nóturnar. Þannig var hann alltí einu kominn í töfrandi díalóg við sjálfan sig og heimalandið.
Seinna aukalagið var síðan hrífandi á allt annan hátt. Fazil byrjaði að spila stef úr Eine Kleine Nacht músikk sem þróaðist síðan í að vera Cape Town jazz, síðan lék hann sér að því að skipta úr klassískum rytma yfir í jazzaðan rytma og gerði áheyrendur alveg ringlaða.
Og þá var vel viðeigandi að bjóða velkomna á svið Túskildingsflautu-tríóið Kwela Tebza með jazz fimmta áratugarins Suður Afríku. Jazzinn sem var bældur niður í mörg ár en ný kynslóð ætlar að halda áfram með. Eins og þeir sögðu sjálfir "we are not gonna stop now". Kwela bræðurnir tóku sig vel út næsta klukkutímann, ungir sjarmörar í teinóttum jakkafötum með flotta kórígrafíu og lipra fingur á túskildingsflautunum.
Very cool. En á köflum pínulítið þreytandi fyrir eyra sem er vant blokkflautum og þverflautum.
Boðskapurinn komst vel til skila. Aðstandendur tónleikanna trúa því að tónlistamenntun í fátækrahverfum getið virkað örvandi og aukið á sjálfsvirðingu og stolti hjá krökkum. Það sem mér var efst í huga eftir tónleikana var að sá sem hefur tónlist í sér og í lífi sínu er ríkur. Já kannski ríkari en sá sem býr í húsi þar sem eina hljóðfærið er þjófavarnabjallan og múrinn í kring kann bara að segja 'armed response'.


Carmen í Khayelitsha
Picasso og Afríka
Túskildingsflauta