Sunday, April 01, 2007

CAPE07 Biennale - List í tíma og ótíma



19 mánaða undirbúningi hátíðarinnar CAPE07 hefur verið líkt við meðgöngutíma fíla sem er 22 mánuðir.
Hátíðin átti fyrst að heita TansCape af því að ætlunin var að umturna miðborginni, úthverfum og nærliggjandi bæjum í eitt stórt listrými. Þá áttu borgarbúar að streyma á milli bæjarhluta og upplifa list í tíma og ótíma...
Síðan hefur frasinn “too little budget” haft sitt að segja, stórar hugsanir gufað upp og lykil-leikmenn horfið af vettvangi.
Opnunin var samt haldin með promp og pragt í síðustu viku í menningarsetri í Khayelitsha hverfinu. Þangað voru komnir nokkrir djarfir borgarbúar en það eru langt frá því allir sem þora að keyra inní Khayelitshia (township, frægast fyrir hættuleg gengi sem bera litla sem enga virðingu fyrir mannslífum).
Menningarsetrið, yfirleitt notað fyrir brúðkaup og jarðarfarir, var nú í fyrsta skipti nýtt sem sýningarými. Á meðan á opnuninni stóð var samt líka haldið eitt brúðkaup.



Menningarsetrið við Lookout Hill í Khayelitshia




Konur bíða eftir brúðinni





Uppá Lookout Hill í Khayelitshia






Verk í Khayelitshia


Eftir opnunarhátíðina er ég síðan búin að þræða fleiri sýningar og oft fámenna viðburði (heimsmeistaramótið í krikket hefur kannski eitthvað að segja, margir eru límdir við sófana útaf því), ég er kannski með eina bestu viðveru í bænum ef tekið væri manntal. Þrátt fyrir að hægt væri að útbúa langan kvörtunarlista yfir skipulagsbresti, tæknilega örðuleika og skort á upplýsingum þá hefur aðstandendum tekist að lyfta götuandanum uppá hærra plan, skapa brýr milli ólíkra hverfa og smita manneskju eins og mig af löngun í enn meiri list í tíma og ótíma.
Takk fyrir mig!



Verk eftir Wim Botha í galleríi á víngarðinum Spier's í Stellenbosch


Innsetning vínbóndans sjálfs

Ferðafélagar mínir í skipulagðri rútuferð á milli gallería



Að rekast á listviðburði í kvöldinættinu getur verið magnað. Í gærkvöldi voru risastórir eldskúlptúrar á fleygiferð á túni hér rétt hjá. Tunglið skein fullt fyrir ofan og borgarljósin í bakgrunni. Logarnir sungu þar sem þeir sveifluðust í loftinu og rödd predikara í Múslima moskvu í næstu götu tónaði undir.






Á artthrob.co.za er hægt að lesa um marga Suður Afríska listamenn.
Hér eru nokkur vel valin nöfn fyrir áhugasama:
-William Kentridge (teikningar og videólist)
-Marlene Dumas (ein dýrasta núlifandi myndlistakona í heimi)
-Wim Botha (ungur og efnilegur, ádeila á guði og menn í borgaralegum búningum)
-Berni Searle (hver ertu? Litarhaft og kyn hafa óumflýjanlega áhrif á hver þú ert)
-Robin Rhode (videólistamaður)
-Brendhan Dickerson (eldskúlptúralistamaður)
-Dinkies Sithole (skemmtilegur steppdansari)

CAPE07 hátíðin