Thursday, November 09, 2006

Aðgangur að réttlæti



Um þessar mundir er 10 ára afmæli Stjórnarskrár hinnar nýju Suður Afríku fagnað og að því tilefni eru mál sem snerta lýðræðið rædd í Þjóðarsálinni á radio SABC (ríkisútvarpinu).
Í morgun var spurt hverjir njóti lýðræðisins og hverjir hafi raunverulega aðgang að réttlætinu í lýðsræðisríki þar sem meiri hluti þjóðarinnar býr samt enn við kröpp kjör.

Í klippingu hjá Peter sem er litaður, leiddist talið að ömmum okkar. Við áttum það sameiginlegt að eiga einstakar ömmur.
En amma Peters bjó hér í Höfðaborg á tímum óréttlætis og niðurlægingar (litaðir voru í hópi ekki-hvítra).
Saga ömmu Peters gerist í strætó fyrir ca 30 árum, hún er á leiðinni með hádegismat til vinnuveitenda síns. Þegar hún er búin að borga farmiðann sest hún niður fremst í vagninum til að setja budduna aftur í töskuna sína. Þetta var sæti fyrir hvíta en hún átti að fara aftast. Annar farþegi, kona sem situr þarna fremst, kemur skilaboðunum um amman sé sest í rangt sæti skýrt til skila, hún hrækir framan í ömmu Peters.

Næsta saga er af Afrikaans vinkonu okkar og gerðist í gær. Hún er lektor við háskólann og kennir lög.
Nokkrir nemendur tóku sig saman og þrömmuðu með skilti fyrir framan skrifstofuna hennar og ásökuðu hana um kynþáttahatur. Hún á að hafa sagt við einn nemanda að svartir geti ekki orðið jafn góðir lögfræðinar og hvítir. Hver sá sem þekkir þessa vinkonu okkar veit hversu fjarstætt þetta er, hún er nefnilega svo kýrskýr og auk þess mikil málsvarskona jafnréttis. Hér eru nemendurnnir einfaldlega að ljúga blákalt, nýta sér viðkvæmt ástand milli kynþátta og ungs lýðræðisins, líklega til að reyna bægja frá kennara vegna hræðslu við fall í yfirstandandi prófum.
Vinkonan gengur nú í gegnum yfirheyrslur, niðurlægingar á göngum skólans og á jafnvel réttarhöld fyrir höndum.

Þótt það sé greinilegt að aðgangur að réttlætinu sé meiri í seinni sögunni, þá lýsa sögurnar báðar upplifunum sem rista djúpt hjá þeim sem verða fyrir. Upplifunum sem munu seint gleymast. Traust er brostið og trúin á samferðafólkið minnkar.