Saturday, March 04, 2006


Tvær vikur í “comfort zone”

Waterkloof heights er eitt af betri hverfum Pretoríu. Hér býr fólk í stórum húsum með görðum og hliðum og miklum veggjum allt í kring. Sumstaðar eru verðir eða hundar sem sitja eða sofa fyrir utan, en sumstaðar er bara merkið “ADT armed respone” sem merkir að þjófavarnarbjallan kallar samstundis á vopnaðan vörð.

Hér fara íbúar ekkert gangandi, heldur keyra allra sinna ferða, nema kannski nokkrir sem fara út að skokka. Ef maður sér einhverja fótgangandi, þá er það þjónustufólk og vinnufólk sem er að koma eða fara úr vinnu frá einhverju heimilinu, þau sitja líka stundum á grasi út við vegarkantinn og slappa af. Við Dries förum stundum útí labbitúr og þá heilsa allir, ekki útaf því að þetta er smábær þar sem allir kannast við alla, heldur útaf því að það eru svo fáir á labbi.

Öll húsin eru gulbrún eða rauðleit, talað um Tuscany style, en það er ekkert sem minnir beinlýnis á Ítalíu. Áðan fór ég í fyrsta skipti ein út og ætlaði að kaupa blaðið í búð sem er hér rétt hjá, fann samt ekki búðina, kennileytin horfin útí einsleitnina.

Ég er sem sagt lent í comfort zone grænustu höfuðborgar heims, með sundlaug í garðinum, mangó í annarri hendi og appeltizer (dýrindis eplagos) í hinni, já og guð í hjörtum fólksins og glaðasólskin á himninum. Það vantar samt eitthvað til þess að gamall Vesturbæingur þrífist almennilega..
en það lúrir sem betur fer ýmislegt skammt undan.